Dómur í máli Jóhanns R. Skúlasonar gegn LH

08. apríl

Með dómi Áfrýjunardómsstóls ÍSÍ þann 5. apríl 2024 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að stjórn og landsliðsnefnd LH hafi verið óheimilt að vísa landsliðsmanninum Jóhanni Rúnari Skúlasyni ótímabundið úr landsliðshópi Íslands, þann 31. október 2021. Niðurstaða dómstólsins byggir á þeirri forsendu að brottvísunin hafi ekki verið heimil á grundvelli þeirrar lagagreinar íþróttalaga og laga ÍSÍ sem vísað var til í yfirlýsingu stjórnar og landsliðsnefndar sama dag.

Í dóminum segir meðal annars:

„Í þeirri niðurstöðu felst hvorki að áfrýjandi hafi átt rétt á sæti í landsliðhópi Íslands í hestaíþróttum á þeim tíma sem umþrætt ákvörðun var tekin, né heldur að hann eigi slíkan rétt til framtíðar, enda val á þeim hópi háð ákvörðun viðeigandi aðila hverju sinni, heldur eingöngu að ekki hafi verið lagagrundvöllur til ákvörðunar sem ber með sér að vera ótímabundin um að útiloka áfrýjanda til framtíðar fyrirfram frá því að eiga möguleika á að vera valinn.“

Í kjölfar dómsins telur stjórn mikilvægt að koma eftirfarandi á framfæri:

Við brottvísun Jóhanns Rúnars Skúlasonar úr landsliðshópi Íslands þann 31. október 2021 var horft til umræddrar lagagreinar íþróttalaga og laga ÍSÍ sem vísað er til í dómnum en ekki einvörðungu.

Í upphaflegri yfirlýsingu stjórnar og landsliðsnefndar segir til að mynda: „Stjórn LH telur óverjandi að þeir sem hafi gerst sekir um og eða hlotið refsidóm fyrir alvarlegt kynferðisbrot séu í landsliðshópnum og komi fram sem fulltrúar LH fyrir Íslands hönd, hvort sem er hér á landi eða á erlendri grundu. Er slíkt til þess fallið að skaða ímynd LH, landsins og hestaíþróttarinnar í heild, einnig er það andstætt þeim gildum sem LH stendur fyrir, en sambandið tekur skýra afstöðu gegn öllu ofbeldi.“

Því hefur ekki verið haldið fram af hálfu stjórnar eða landsliðsnefndar að umrædd brotvikning sé varanleg eða óendurskoðanleg þrátt fyrir að umrædd lagagrein sem stjórn horfði m.a. til við ákvörðun sína feli slíkt í sér og Dómstóll ÍSÍ hefur nú skorið úr um að sé ekki heimilt að styðjast við í tilfelli landsliðsknapa.

Dómurinn sker úr um að vald til að velja knapa í landslið er á hendi landsliðsþjálfara og landsliðsnefndar hverju sinni en ekki dómstóla Íþróttasambandsins eins og segir í dómnum. Dómurinn fellst þannig einnig á að þeim sem falið er að velja þátttakendur hafi verulegt svigrúm til þess enda myndi inngrip dómstóla hafa í för með sér ófyrirséðar afleiðingar fyrir íþróttahreyfinguna.

English version

Dómurinn í heild