A-landsliðshópur LH 2021

A-landsliðhóp LH 2021 skipa:

Ríkjandi heimsmeistarar og titilverjendur

Benjamín Sandur Ingólfsson, Fáki

Benjamín er ríkjandi heimsmeistari ungmenna í gæðingaskeiði. Hann varð m.a. Íslandsmeistari og Reykjavíkurmeistari í unglingaflokki í gæðingaskeiði 2016 og Reykjavíkurmeistari í gæðingaskeiði ungmenna 2018. Hann var valinn efnilegasti knapi ársins 2019.

Guðmundur Björgvinsson, Geysi

Guðmundur er ríkjandi heimsmeistari í 250 m. skeiði. Guðmundur Björgvinsson stundar tamningar og þjálfun á Efri-Rauðalæk í Rangárvallasýslu. Guðmundur varð Íslandsmeistari í fjórgangi 2012 og 2015,  heimsmeistari í fjórgangi árið 2015. Guðmundur var kosinn knapi ársins árið 2012 og 2015 og skeiðknapi ársins 2017.

Konráð Valur Sveinsson, Fáki

Konráð Valur Sveinsson er ríkjandi heimsmeistari í 100 m. skeiði. Konráð varð heimsmeistari í flokki ungmenna í gæðingaskeiði 2017. Hann er margfaldur Íslandsmeistari í skeiðgreinum, heimsmethafi í 250m skeiði og ríkjandi heimsmeistari í 100m skeiði. Hann var valinn skeiðknapi ársins 2019. Konráð stundar kennslu við Háskólann á Hólum.

Teitur Árnason, Fáki

Teitur er ríkjandi heimsmeistari í gæðingaskeið. Teitur er tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og starfar við tamningar og þjálfun á Hvoli í Ölfusi. Teitur var valinn skeiðknapi ársins 2014 og 2015 og gæðingaknapi ársins 2018. Hann varð Norðurlandameistari í gæðingaskeiði 2018 og heimsmeistari í gæðingaskeiði árið 2015.  Hann á ríkjandi Íslandsmet í 150 m. skeiði, var Landsmótssigurvegari í A flokki og Íslandsmeistari í fimmgangi 2018 og Reykjavíkurmeistari í fimmgangi 2020.

Aðrir landsliðsknapar 2021

Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir, Herði

Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir er tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hún starfar á Hrossaræktarbúinu Króki/Margrétarhofi. Aðalheiður varð Íslandsmeistari í gæðingaskeiði 2017, Íslandsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum 2019 og í 1. sæti í slaktaumatölti og samanlögðum fjórgangsgreinum á Reykjavíkurmóti árið 2020 á hesti sínum Óskari frá Breiðstöðum.

Árni Björn Pálsson, Fáki

Árni Björn er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla og stundar tamingar og þjálfun á Oddhól á Rangárvöllum. Hann varð Íslandmeistari í tölti þrjú ár í röð 2012-2014 og aftur árið 2016 og 2019. Hann var einnig Íslandsmeistari í fjórgangí 2019 og bar sigur úr býtum í tölti á Landsmóti 2014, 2016 og 2018. Árni Björn var valinn knapi ársins 2014, 2016 og 2018.

Bergþór Eggertsson, Þýskalandi

Bergþór Eggertsson er margfaldur heimsmeistari í skeiðgreinum. Hann býr á Lótushofi í Þýskalandi og starfar þar við tamningar og þjálfun.

Daníel Gunnarsson, Sleipni

Daníel Gunnarsson kemur nýr inn í landsliðshóp LH. Daníel hefur átt frábært keppnisár í skeiðgreinum á hryssunni Einingu frá Einhamri 2.

Gústaf Ásgeir Hinriksson, Fáki

Gústaf Ásgeir Hinriksson útskrifaðist sem reiðkennari og þjálfari frá Hólum vorið 2018 og starfar við tamningar og þjálfun á Árbakka í Rangárvallasýslu. Hann er margfaldur Íslandsmeistari í yngri flokkum og sigraði ungmennaflokk Landsmóts 2014 og 2016. Hann átti gott keppnisár árið 2020 á hestinum Brynjari frá Bakkakoti. Gústaf varð heimsmeistari í fjórgangi í flokki ungmenna 2017.

Hanna Rún Ingibergsdóttir, Sörla

Hanna Rún Ingibergsdóttir er tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hún hefur átt góðu gengi að fanga á keppnisbrautinni síðastliðin ár og hefur meðal annars verið í úrslitum á Íslandsmótum og Landsmótum. Hanna Rún starfar við tamningar og þjálfun í Kirkjubæ á Rangárvöllum.

Helga Una Björnsdóttir, Þyt

Helga Una Björnsdóttir útskrifaðist sem reiðkennari frá Háskólanum á Hólum árið 2018. Helga Una hefur skapað sér gott orð á keppnisbrautinni undanfarin ár. Hún varð m.a. Íslandsmeistari í 100 m. skeiði árið 2016. Einnig varð hún Íslandsmeistari í slaktaumatölti 2019.

Hinrik Bragason, Fáki

Hinrik Bragason starfar sem tamningamaður og reiðkennari á Árbakka. Hinrik er margfaldur Íslands-, Norðurlanda og heimsmeistari. Hinrik sigraði A-flokk á LM 2011 og var kjörinn gæðingaknapi ársins 2011. Hann átti gott keppnisár 2020 á hestinum Byr frá Borgarnesi.

Jakob Svavar Sigurðsson, Dreyri

Jakob Svavar Sigurðsson er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla og stundar tamningar og þjálfun á Fákshólum. Hann er margfaldur Íslandsmeistari og sigraði B-flokk á Landsmóti 2016. Jakob var kosinn íþróttaknapi ársins 2012, 2013, 2017 og 2018, gæðingaknapi ársins 2016 og knapi ársins 2017. Jakob varð heimsmeistari í tölti árið 2017.

Jóhanna Margrét Snorradóttir, Mána

Jóhanna Margrét Snorradóttir kemur ný inn í landsliðshópinn en hún var áður í hópnum árið 2019. Jóhanna útskrifaðist sem reiðkennari og þjálfari frá Háskólanum á Hólum árið 2018. Hún starfar við þjálfun og reiðkennslu á Árbakka. Jóhanna var kjörin efnilegasti knapinn árið 2015 og átti frábæran árangur í yngri flokkum. Hún átti gott keppnisár 2020 á hestinum Bárði frá Melabergi.

Olil Amble, Sleipni

Olil Amble starfar sem tamningamaður og þjálfari á Syðri-Gegnishólum. Olil hefur margoft tekið þátt í heimsmeistaramótum og Norðurlandamótum auk þess að hafa hlotið nokkra Íslandsmeistaratitla, m.a. var hún Íslandsmeistari í fimmgangi 2019. Olil varð heimsmeistari í fjórgangi árið 1999.

Ragnhildur Haraldsdóttir, Sleipni

Ragnhildur Haraldsdóttir er starfandi tamningamaður og reiðkennari frá Hólum og hefur starfað við þjálfun hrossa í fjölda ára. Ragnhildur varð Reykjavíkurmeistari í fjórgangi 2020 á Váki frá Vatnsenda.

Siguroddur Pétursson, Snæfellingi

Siguroddur Pétursson stundar tamningar og þjálfun í Hrísdal á Snæfellsnesi. Hann hefur átt góðu gengi að fagna á keppnisbrautinni undanfarin ár varð m.a. í 4. sæti í tölti á Landsmóti 2018. Hann átti gott keppnisár 2020 á hestinum Stegg frá Hrísdal.

Sigursteinn Sumarliðason, Sleipni

Sigursteinn hefur orðið heimsmeistari í gæðingaskeiði 2007, varð Íslandsmeistari í tölti 2011 og landsmótssigurvegari í tölti árin 2011 og 2012. Sigursteinn hefur átt gott keppnisár 2020 í skeiðgreinum á hestinum Krókusi frá Dalbæ og á besta tíma ársins 2020 í heiminum í 250 m. skeiði.

Snorri Dal, Sörla

Snorri Dal Sveinsson kemur nýr inn í landsliðshópinn. Snorri hefur átt frábært keppnisár á hestinum Engli frá Ytri-Bægisá I í fimmgangi. Snorri hefur átt góðan keppnisárangur og var m.a. Landsmótssigurvegari B flokki 2006 og í 150 m skeiði 2008 og Íslandsmeistari í fjórgangi 2007, 2008 og 2009.

Viðar Ingólfsson, Fáki

Viðar Ingólfsson stundar tamningar og þjálfun að Kvíarhóli í Ölfusi. Hann er m.a. margfaldur Íslandsmeistari og Landsmótssigurvegari í tölti. Hann var íþróttaknapi ársins 2008 og gæðingaknapi ársins 2007. Hann varð Reykjavíkurmeistari í tölti 2020.

Þórarinn Eymundsson, Skagfirðingi

Þórarinn Eymundsson stundar tamningar og reiðkennslu á Sauðárkróki. Þórarinn er reiðkennari frá Hólaskóla og hefur starfað sem reiðkennari við skólann síðan árið 2002. Þórarinn hefur náð góðum árangri í öllum keppnisgreinum. Hann er margfaldur Íslandsmeistari í hestaíþróttum. Árið 2007 vann Þórarinn til tveggja gullverðlauna á heimsmeistaramóti íslenska hestsins og var valinn knapi ársins sama ár. Þórarinn er reiðmeistari Félags tamningamanna.