Fréttir

Einar Öder ráðinn liðstjóri

Einar Öder Magnússon hefur verið ráðinn liðstjóri íslenska landsliðsins í hestaíþróttum fyrir HM2009 í Sviss. Einar Öder er þaulkunnugur öllum hnútum varðandi keppni í hestaíþróttum, bæði hér heima og erlendis. Hann hefur verið aðstoðarliðstjóri og/eða liðsmaður íslenska landsliðsins á Norðurlanda- og heimsmeistaramótum í meira en tvo áratugi, eða frá því á HM1987 í Austuríki.

Sleipnir.is

Hestamannafélagið Sleipnir hefur opnað nýja heimasíðu. Síðan hefur einnig fengið nýtt lén: www.sleipnir.is. Lénið var áður www.sleipnismenn.is. Á síðunni er að finna ýmsar upplýsingar um félagsstarfið, bæði fyrr og nú. Síðan er byggð á Joomla vefumsjónarkerfinu og er hýst á Moli.is.

Hestamannafélagið Logi 50 ára

Félagar í Hestamannafélaginu Loga í Biskupstungum héldu upp á 50 ára afmæli félagsins í Aratungu síðastliðinn laugardag. Um 300 manns tóku þátt í fagnaðinum. Í Loga eru 204 félagsmenn, sem lætur nærri að vera um þriðjungur íbúa sveitarfélagsins.

LH fær fulltrúa í fagráð í hrossarækt

Ísleifur Jónasson hefur tekið sæti í fagráði í hrossarækt sem fulltrúi Landssambands hestamannafélaga. LH hefur ekki átt fulltrúa í fagráðinu síðan árið 2000, en þá dró LH fulltrúa sinn úr ráðinu í tengslum við viðræður um sameiningu LH og Félags hrossabænda. Ekkert varð síðan af þeirri sameiningu.

Skráning á “Ístölt – Þeir allra sterkustu

Skráning á “Ístölt – Þeir allra sterkustu" sem haldið er af LH til stuðnings íslenska landsliðinu er opin. Skráning fer fram á: www.gustarar.is . Til að skrá sig þarf að smella á valliðinn "Skráning" í borðanum efst á síðunni. Þá opnast skráningarkerfið og byrja þarf á því að slá inn kennitölu knapa til að geta valið flokk.

Meistaradeild UMFÍ - Úrslit í fjórgangi og Smala

Í dag, laugardag, fór fram keppni í Meistaradeild UMFÍ.  Keppt var í fjórgangi og smala.  Úrslit urðu þau, að í fjórgangi sigraði Rakel Nathalie Kristinsdóttir fyrir Fet, í öðru sæti varð Arnar Bjarki Sigurðsson fyrir Ræktunarbúið Hjarðartúni og í þriðja sæti varð Ragnheiður Hallgrímsdóttir fyrir Arabæ.

Upplýsingaveita um hesthús

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur nú tekið í notkun upplýsingaveitu á vefslóðinni www.hesthus.is, en vefsíðan er rekin af átaksverkefninu Hross í hollri vist. Tilgangur þess verkefnis er að fræða hestamenn og hesthúsaeigendur um kosti og galla ólíkra lausna sem viðkoma hesthúsum og nærumhverfi hrossa.

Meistardeild UMFÍ - Smali og fjórgangur á laugardag

Á morgun laugardaginn 21. mars kl. 11:00 verður keppt í Rangárhöllinni í Smala og fjórgangi.  Smalabrautin er nú tilbúin og gefst keppendum kostur á að æfa í dag, en húsið verður opið til kl. 22:00 og frá kl. 8:00 á morgun til kl. 10:00.   Húsvörður Ragnárhallarinnar gefur upplýsingar um hvernig á að ríða Smalabrautina.  Einnig hangir uppi teikning af brautinni.  Eins og áður er aðgangur ókeypis fyrir þá sem vilja sjá meistaradeildarknapa nútíðar og framtíðarinnar spreyta sig.

Jakob langbestur í gæðingafimi

Jakob Sigurðsson á stóðhestinum Auði frá Lundum bar höfuð og herðar yfir aðra keppendur í gæðingafimi Meistaradeildar VÍS í gærkvöldi. Hann fékk 8,25 í einkunn en næsti keppandi fékk 7,73. Tíu knapar kepptu til úrslita. Var mál manna að reiðmennska Jakobs hefði verið til fyrirmyndar. Hesturinn var léttur í taumum og sáttur, og geislaði af mýkt og fegurð.

Smali og fjórgangur í Meistaradeild UMFÍ á laugardag

Á laugardaginn verður framhald á Meistaradeild UMFÍ í Rangárhöllinni á Hellu.  Þá verður keppt í Smala og fjórgangi og hefst keppni kl. 11:00.  Eins og fyrr er ókeypis aðgangur og veitingasala á staðnum.  Minnum keppendur að skila inn upplýsingum um keppnishesta á netfangið ssaggu@itn.is strax.