Reglur Landssambands hestamannafélaga um sóttvarnir á æfingum og mótum vegna COVID-19

Sóttvarnarreglur LH - pdf

Sóttvarnarfulltrúar hestamannafélaga

COVID-19
Íþróttir sérsambanda ÍSÍ
Reglur varðandi framkvæmd æfinga og keppni í hestaíþróttum

Leiðbeiningar þessar verða uppfærðar eftir þörfum
7. september 2020

1.         Markmið

Markmið þessara reglna er að tryggja að umgjörð á æfingum og keppni verði með þeim hætti að hægt sé að halda úti íþróttastarfi á Íslandi þrátt fyrir að COVID-19 sé við lýði í íslensku samfélagi og útlit fyrir að svo kunni að verða áfram næstu misseri. Mikilvægasta vopn samfélagsins gegn COVID-19 eru þær almennu sóttvarnaraðgerðir sem sóttvarnalæknir, embætti landlæknis og almannavarnir hafa kynnt ítarlega síðustu mánuðina.

Markmiðið er að lágmarka áhættuna á að þátttakendur (iðkendur, starfsmenn félaga og allt annað aðstoðarfólk) smitist af COVID-19. Markmiðið er jafnframt og ekki síður að lágmarka smit til annarra, ef einstaklingur innan félags sýkist þrátt fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir. Mikilvægt er að öllum iðkendum og aðstoðarfólki sé gert það ljóst að ekki er hægt að útrýma sýkingarhættu að öllu leyti.

Þessar reglur sem hér eru settar ná til keppnissvæða, sameiginlegrar æfingaaðstöðu, ferðalaga og síðast en ekki síst til mikilvægi almennrar aðgæslu allra þátttakenda sem fæddir eru árið 2004 eða fyrr. Reglur þessar öðlast gildi 07. september 2020 og gilda til 27. september kl. 23.59 eins og auglýsing heilbrigðisráðherra frá 3. september um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Reglur þessar fela í sér aðskilnað hópa eftir því sem nauðsyn krefur t.d. knapa/ þjálfara frá almennum starfsmönnum félaga og ítarlegri aðskilnað fjölmiðla frá öðrum þátttakendum.

Jafnframt er hér fjallað um ráðstafanir sem nauðsynlegar eru varðandi fjarlægðarmörk innan einstakra hópa, t.d. knapa, þjálfara og starfmanna. Sérstaklega er kveðið á um hámarksfjölda starfsfólks nauðsynlegra þjónustuaðila, t.d. starfsmenn mannvirkja, starfsmenn móta og starfsmenn fjölmiðla. 

Þátttakandi sem sýkst hefur þarf eins og aðrir að halda sig í einangrun þar til liðnir eru a.m.k. 14 dagar frá greiningu/jákvæðu sýni (greiningarprófi) og að hann/hún hafi verið einkennalaus í a.m.k. 7 daga. Áður en að knapi getur hafið keppni á ný þarf mat læknis til staðfestingar á að hann/hún sé keppnisfær samkvæmt fyrirliggjandi leiðbeiningum. Aðrir  félagsmenn og starfsmenn hlutaðeigandi félags og aðrir aðilar geta þurft að fara í sóttkví í allt að 14 daga. 

2.         Grundvallarsmitgát

 • Almenn handhreinsun, þ.e. handþvottur eða notkun handspritts (ef handþvottur er ekki mögulegur).
 • Gæta hreinlætis við hósta og hnerra með því að halda fyrir vitin á meðan hóstað er með bréfþurrku, sem er hent strax að notkun lokinni í rusl og hendur þvegnar á eftir. Annars hósta og hnerra í olnbogabót.
 • Vönduð þrif og sótthreinsun á yfirborði sem oft er snert.
 • Forðist sameiginlega snertifleti á fjölförnum stöðum.
 • Virðið gildandi fjölda- og fjarlægðartakmarkanir.
 • Forðist snertingu t.d. með handarbandi.

 

Einkenni COVID-19:

 

Ef knapi eða annar einstaklingur innan félags, eða fjölskyldur þeirra, fær einkenni sem geta bent til COVID-19:

 • Hiti
 • Hósti
 • Andþyngsli
 • Hálssærindi
 • Slappleiki
 • Bein- og vöðvaverkir, höfuðverkur
 • Skyndileg breyting eða tap á bragð- og lyktarskyni

 

 • Viðkomandi skal halda sig heima og alls ekki mæta á æfingasvæði eða keppnissvæði.
 • Hafa skal samband við heilsugæslu símleiðis eða í gegnum netspjall á heilsuvera.is eða við Læknavaktina í síma 1700 svo unnt sé að framkvæma próf fyrir COVID-19 án tafar.
 • Það er mjög mikilvægt að fara ekki í eigin persónu á heilsugæslu eða Læknavaktina án þess að hringja fyrst.
 • Heilbrigðisstarfsfólk veitir ráðleggingar um næstu skref.

3.         Þrif

Umhverfi skal þrifið vandlega því smitefni frá þeim sem eru hugsanlega sýktir getur borist á yfirborð í umhverfinu. Einnig er margt annað smitefni sem getur borist milli manna og því er mikilvægt að allir gæti að hreinlæti. Sameiginleg rými, snertilfletir og salerni skulu þrifin helst tvisvar á dag en a.m.k. daglega (umhverfisspritt 85%, bleikiklórblanda 500-1000 ppm, Virkon 1%).

4.         Búnaður

Hver knapi skal nota sinn eiginn búnað.

5.         Áhorfendur

Til samræmis við 5. gr auglýsingar heilbrigðisráðherra dags. 3. september 2020 er heimilt að hafa áhorfendur á hestaíþróttaviðburðum með eftirfarandi skilyrðum:

 1. Áhorfendur eru leyfðir með því skilyrði að ávallt sé gætt að 1 metra bili milli ótengdra aðila en þó aldrei fleiri en 200 manns í hverju rými. Fjölda- og nálægðartakmörkun tekur ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.
 2. Um öll svæði gildir að einstaklingar eiga ekki að koma inn á svæði ef þeir:
 • Eru í sóttkví.
 • Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).
 • Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
 • Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, bein- eða vöðvaverki, þreytu).

 

 1. Rými þurfa að vera algjörlega aðskilin með a.m.k. 2 metra háu skilrúmi eða 2 metra bili sem ekki er hægt að fara yfir.
 2. Auðvelt aðgengi að handþvottaaðstöðu og handspritti þarf að vera til staðar í hverju rými.
 3. Hvert skilgreint rými þarf að hafa eigin inngang og útgang og enginn samgangur er heimilaður á milli rýma.
 4. Miðasala, veitingasala og önnur sambærileg þjónusta þarf að vera aðskilin fyrir hvert rými. Starfsfólk við slíka þjónustu má ekki fara á milli rýma.
 5. Salerni þurfa að vera aðskilin fyrir hvert rými.
 6. 1 metra nálægðartakmörkun gildir milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum, sbr. 1. mgr. 4. gr. auglýsingarinnar. Það getur því einnig í minni rýmum takmarkað áhorfendafjölda niður fyrir 200 manns. Að öðru leyti skuli dreifa áhorfendum eins mikið og unnt er.
 7. Aðstandendur viðburða bera ábyrgð á að ekki verði hópamyndun fyrir eða eftir íþróttaviðburði inni á svæði sem og beint fyrir utan það.
 8. Fjölda- og nálægðartakmörkun auglýsingar ráðherra tekur ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.
 9. Með nánum tengslum er fyrst og fremst átt við nánustu fjölskyldu, þó ekki endilega einungis þá sem deila heimili, nánustu vini og eftir atvikum fáeina nána samstarfsmenn. Þannig sé t.d. ekki unnt að líta svo á að einstaklingur sé í nánum tengslum í þessum skilningi við alla vinnufélaga sína en mögulega einn til fjóra sem viðkomandi starfar mest með eða er í mesta návígi við. Mikilvægt er að alltaf sé um sömu nánu aðila að ræða en að það breytist ekki dag frá degi.
 10. Brýna þarf fyrir áhorfendum að gæta ýtrustu varkárni og virða reglur um nálægðartakmarkanir og sóttvarnir. Veggspjöld til áminningar eru til sem hægt er að hengja upp (https://www.covid.is/veggspjold). 

6.         Veitingar

Mótshaldarar ættu ekki að útvega veitingar fyrir starfsfólk eða þátttakendur. Allar veitingar sem einstaklingar taka með sér ættu að vera í lokuðum umbúðum. Óheimilt er að deila drykkjarílátum eða mataráhöldum með öðrum einstaklingum. Vatnsbrúsar og önnur drykkjarílát eiga að vera merkt.

Sé veitingasala til staðar fyrir áhorfendur þarf að huga að aðgengi að handþvottaaðstöðu og handspritti. Veitingasala og önnur sambærileg þjónusta þarf að vera aðskilin fyrir hvert rými. Starfsfólk við slíka þjónustu má ekki fara á milli rýma. Sama á við framreiðsluaðila.

Sameiginlega snertifleti þarf að þrífa og sótthreinsa a.m.k. daglega eða oftar eftir aðstæðum.

Brýna þarf fyrir gestum að gæta ýtrustu varkárni og virða reglur um nálægðartakmarkanir og sóttvarnir. Veggspjöld til áminningar eru til sem hægt er að hengja upp (https://www.covid.is/veggspjold)

7.         Gátlisti fyrir æfingar í reiðhöllum

  ¨  Þátttakendur

  ¨  Svæðaskipting (hólfaskipting)

  ¨  Búnaður

  ¨  Framkvæmd æfinga/námskeiða

  ¨  Sótthreinsun tækja og búnaðar

 • Eingöngu þjálfarar og knapar hafa aðgang að æfingum, nefndir hér þátttakendur. Þjálfarar skulu almennt virða 1 metra regluna við iðkendur og nota andlitsgrímu ef ekki er hægt að virða fjarlægðarmörk. Undanþága um 1 metra reglu fyrir iðkendur og þjálfara gildir aðeins á æfingasvæðinu, ekki utan þess.
 • Starfsmenn reiðhalla skulu ekki vera inni í sal á æfingatíma. Sé það nauðsynlegt skulu þeir nota andlitsgrímu sé ekki mögulegt að halda 1 metra fjarlægð frá þátttakendum. 
 • Þátttakendum er óheimilt að nota aðra félagsaðstöðu, s.s. eldhús eða aðra sameiginlega aðstöðu. Ef nauðsynlegt er að nýta fundaraðstöðu skal fara að almennum reglum um 1 metra fjarlægð milli aðila. 
 • Þátttakendur skulu spritta hendur fyrir og eftir æfingar og sama á við um allan sameiginlegan búnað. Sameiginlegir snertifletir skulu sótthreinsaðir á milli æfinga og/eða funda. Fækka skal sameiginlegum snertiflötum í reiðhöllum eða annarri aðstöðu eins og hægt er, t.d. bekkjum, stólum og öðru slíku. 
 • Ef fleira en eitt námskeið fer fram í sömu reiðhöll samtímis skal gæta þess að þátttakendur námskeiða hittist ekki á milli tíma, annað hvort með nægjanlegu bili á milli tíma eða með nýtingu mismunandi inn- og útganga úr reiðhöll. 

8.         Gátlisti fyrir keppnir/mót

  ¨  Ferðir til og frá keppnisstað

  ¨  Koma á keppnisstað

  ¨  Þátttakendur

  ¨  Framkvæmd keppni

  ¨  Sótthreinsun tækja og búnaðar

  ¨  Svæðaskipting

 • Leitast skal við að skipta keppnissvæði upp í eftirfarandi svæði eins og hægt er og skal enginn samgangur skal vera milli svæða:Keppnissvæði: Upphitunarsvæði og keppnisvöllur.
  • Aðgang hafa knapar, dómarar og starfsmenn móts.
  Ytra svæði: Annað svæði mótssvæðis en keppnissvæði.
  • Aðgang hafa fjölmiðlar og aðrir sem hafa heimild til að vera á mótsvæði á meðan á móti stendur.
 • Starfsmenn móta skulu vera eins fáir og hægt er. Starfsmenn móta skulu í öllum tilfellum halda minnst 1 metra fjarlægð frá knöpum og öðrum starfsmönnum, sé það ekki framkvæmanlegt ber starfsmönnum að hafa andlitsgrímur.
 • Dómarar skulu mæta tilbúnir og skulu fylgja 1 metra reglu eins og hægt er og reyna að komast hjá öllum líkamlegum snertingum við búnað og annað fólk. Knapar og starfsmenn skulu virða 1 metra reglu gagnvart dómurum. 
 • Þegar knapar hafa lokið keppni skulu þeir yfirgefa mótssvæðið fljótt og örugglega og forðast samgang. Knapar skulu hvorki heilsast fyrir eða eftir keppni með snertingu. 

Ítarefni: Framkvæmd mótahalds utanhúss

Dagskrá móta skal setja upp með það að leiðarljósi að ekki muni safnast saman fleiri en gildandi fjöldatakmarkanir leyfa. Lengri pásur verða á milli greina og gera þarf ráð fyrir að hver keppnisgrein taki lengri tíma en vant er til að hægt sé að tryggja fjöldatakmarkanir á keppnissvæði og nándarreglu.

1. Aðstaða knapa á keppnissvæði.

Tryggja þarf 1 metra bil á milli allra knapa. Þar sem ekki er hægt að tryggja að hver knapi hafi aðgang að sér hesthúsi verða knapar að hafa hesta sína og allan búnað á sinni hestakerru og í sínum bíl.

2. Salernisaðstaða

Tryggja þarf sér salernisaðstöðu fyrir knapa annars vegar og dómara og starfsfólk hins vegar. Mótshaldara ber að tryggja að sótthreinsivökvi sé á öllum salernum og þau séu sótthreinsuð daglega.

 3. Upphitunarsvæði og upphitunarvöllur

Knapar skulu gæta að 1 metra reglunni í upphitun fyrir keppni og tryggja þarf að upphitunarsvæði bjóði upp á fjarlægð milli knapa. Í keppnisgreinum þar sem fleiri en einn er inni á velli í einu er vikið frá þeirri reglu að knapar mæti í upphitunarhring. Aðeins í greinum þar sem einn knapi er í braut í senn verður skylt að mæta í upphitunarhring. 

 4. Keppnisvöllur - forkeppni

Knapar virði 1 metra regluna. Ef inn- og útgangur af keppnisvelli er sá sami þarf að gæta þess að knapar mætist ekki á leið inn og út af keppnisvelli. Næsti knapi/næsta holl ríður inn á völlin þegar knapinn/hollið á undan er farið út af vellinum. Þegar fleiri en einn knapi er inn á keppnisvellinum í einu skulu knapar reyna eftir fremsta megni að virða 1 metra regluna.

 5. Keppnisvöllur – úrslit   

Knapar skulu reyna eftir fremsta megni að virða 1 metra regluna.

 6. Kappreiðar

a. Einungis er heimilt að ræsa tvo knapa í einu í skeiðkappreiðum.

b. Starfsmenn við rásbása skulu bera andlitsgrímu og einnota hanska.

 7. Dómarar og ritarar

                               a.            Þrír til fimm dómarar dæma hverja grein. Þeir sitja hver í sínum bíl.

                               a.            Kjósi dómari að hafa ritara við dómsstörf ber að virða 1 metra regluna séu dómari og ritari ekki í daglegum samskiptum.

 8. Fóta- og áverkaskoðun

                               a.            Starfsmaður í fótaskoðun ber andlitsgrímu og einnota hanska. Við vigtun fótabúnaðar leggur knapi hófhlífar sjálfur á vigtina. Knapi og starfsmaður fótaskoðunar virði 1 metra regluna.

                               b.            Í úrslitum framkvæma dómarar þessa skoðun og ber þeim að bera andlitsgrímu og einnota hanska og virða 1 metra regluna.

9. Dómpallur

Tveir starfsmenn mega vera samtímis í dómpalli og virða 1 metra regluna.

10. Verðlaunaafhending

Við verðlaunafhendingu skal gæta að 1 metra bili á milli knapa. Starfsmaður móts sem afhendir verðlaun skal bera andlitsgrímu og einnota hanska. Ekki skal setja verðlaun um háls á knöpum.

9.         Fjölmiðlar

Starfsmönnum fjölmiðla ber að kynna sér sóttvarnaraðgerðir á sínu vinnusvæði á hverjum mótsstað. Sóttvarnarfulltrúi er ábyrgur fyrir því að fjölmiðlar hafi aðgang að upplýsingum sem þeir þurfa til að geta fylgt þeim reglum sem hér eru settar og hvernig þær eru útfærðar á hverju mótssvæði.

Starfsmönnum fjölmiðla ber að hafa samband við ábyrgðaraðila tímanlega fyrir hvert mót og óska eftir að fá aðgang. Vinnuaðstaða fjölmiðla skal skilgreind. Sóttvarnarfulltrúi ber ábyrgð á að tryggja aðgengi að aðstöðunni og þegar þangað er komið eiga starfsmenn fjölmiðla að halda sig þar þangað til móti er lokið og forðast almennt aðra starfsmenn móts.

Ljósmyndarar hafa aðgang að ákveðnu afmörkuðu svæði. Tryggja skal að leiðir ljósmyndara og keppenda skarist ekki þegar komið er á mótsstað.

Fjölmiðlum ber að tryggja að starfsmenn á þeirra vegum hafi ekki sýnt nein einkenni COVID-19 þegar þeir koma til starfa.

Þátttakendur sem fara í viðtöl hjá fjölmiðlum er skylt að virða 1 metra nálægðarviðmið. Starfsmönnum fjölmiðla sem taka slík viðtöl ber að tryggja að hægt sé að framkvæma þau miðað við þessi skilyrði.

10.    Sóttvarnarfulltrúi

Hvert félag skal skipa sérstakan sóttvarnarfulltrúa sem ber ábyrgð á því að farið sé eftir þeim reglum sem nefndar eru í þessu skjali. Það er jafnframt á ábyrgð sóttvarnarfulltrúa að tryggja að allir aðilar viðkomandi hestamannafélags séu meðvitaðir um þessar reglur. Sóttvarnarfulltrúi skal tryggja að iðkendur, þjálfarar og allt annað aðstoðarfólk og starfsmenn þekki til almennra sóttvarnaraðgerða og að þeim sé fylgt. Sóttvarnarfulltrúi ber einnig ábyrgð á því að allir fyrrnefndir aðilar þekki til helstu einkenna COVID-19. Iðkandi eða aðstoðarfólk,  sem finnur fyrir einkennum, er óheimilt að umgangast aðra knapa eða annað aðstoðarfólk. Sóttvarnarfulltrúa ber að tryggja að þessu sé fylgt án nokkurra undantekninga. Sérsambönd skulu birta lista yfir sóttvarnarfulltrúa félags.

11.    Ef grunur um veikindi

Ef þig grunar að þú sért með smit ættirðu að halda þig heima og hafa samband símleiðis við heilsugæsluna þína eða í gegnum netspjall á heilsuvera.is, eða Læknavaktina utan dagvinnutíma í síma 1700. Heilbrigðisstarfsfólk mun svara og ráðleggja hver næstu skref ættu að vera. Ekki á að fara í eigin persónu á læknavakt eða heilsugæslu án þess að vera búin að vera í sambandi símleiðis eða í netspjalli.

Ef þig grunar að einhver í þínu nærumhverfi sé smitaður/smituð ættirðu að gæta þess að eiga ekki í nánu samneyti við viðkomandi. Ráðleggið viðkomandi að hafa samband við heilsugæsluna eða Læknavaktina til að fá ráðleggingar.

12.    Daglegt líf utan æfinga og keppni

Ef okkur á að takast að halda áfram íþróttaiðkun þurfum við að sameinast um að þátttakendur í íþróttinni lágmarki aðra þætti daglegs lífs sem snúa að öðru en heimilislífi og vinnu. Iðkendur, þjálfari, dómari eða annað aðstoðarfólk sem á erindi á fjölmenna staði skal ávallt halda a.m.k. 1 metra fjarlægð frá öðrum einstaklingum og íhuga að bera andlitsgrímu ef það er ekki hægt. 

Iðkendur ættu að kynna sér reglur um  sóttkví í heimahúsi og fylgja því sem hægt er í daglegu lífi til að vernda fjölskyldur sínar, vinnufélaga og aðra leikmenn. Þeir sem geta unnið í fjarvinnu að fullu eða að hluta ættu að ræða við vinnuveitendur sína um slíkt fyrirkomulag. 

Iðkendur,  þjálfarar, dómarar og annað aðstoðarfólk skal gæta að almennum sóttvörnum (1 metra regla, handþvottur og sótthreinsun) á heimilum sínum, á vinnustað og hvar sem þeir eru á meðal fólks. Ef einstaklingur innan heimilis þessara aðila fær einhver einkenni sem bent geta til COVID-19 ætti viðkomandi án tafar að einangra sig þar til framkvæmt hefur verið veirupróf og niðurstaða liggur fyrir. Ekki skal mæta á heilbrigðisstofnun heldur hringja á undan í heilsugæslu en á Læknavakt utan dagvinnutíma (sími 1700), láta vita og gera ráðstafanir fyrir sýnatöku. Knapi sem sýkst hefur þarf eins og aðrir að halda sig í einangrun þar til liðnir eru a.m.k. 14 dagar frá greiningu/jákvæðu sýni (greiningarprófi) og að hann/hún hafi verið einkennalaus í a.m.k. 7 daga. Áður en að knapi getur hafið æfingar og keppni á ný þarf mat læknis til staðfestingar á að hann/hún sé keppnisfær samkvæmt fyrirliggjandi leiðbeiningum. Aðrir knapar og starfsmenn hlutaðeigandi félags geta þurft að fara í sóttkví í allt að 14 daga.

13.    Ef eitthvað er óljóst

Ábyrgðaraðili þessara leiðbeininga er:  Lárus Ástmar Hannesson, larusha@simnet.is

Sóttvarnarfulltrúi Landssambands hestamannafélaga er: Berglind Karlsdóttir, berglind@lhhestar.is, sími: 514-4030.

14.    Frekari upplýsingar um COVID-19

15.    Viðaukar (lög, reglugerðir og annað)

Auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttir nr. /2020 útgefin 3. september 2020

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Regluger%c3%b0%20um%20takm%c3%b6rkun%20%c3%a1%20samkomum%20vegna%20fars%c3%b3ttar%20stj%c3%b3rnart%c3%ad%c3%b0indi.pdf

 

Minnisblað sóttvarnarlæknis frá 2. september 2020:

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Minnisblad-samkomutakmarkanir%2002092020%20(003).pdf

Leiðbeiningar um rými:

https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38990/Lei%C3%B0beiningar%20fyrir%20almenning%20um%20s%C3%B3ttkv%C3%AD%20%C3%AD%20heimah%C3%BAsi%2002072020.pdf