Lei­ari fyrir gŠ­ingadˇmara

Markmið gæðingakeppninnar er að finna besta reiðhestinn. Við þá leit ber dómurum ávallt að hafa í huga eftirfarandi höfuðforsendur:

Vilji

Fyrsta og mikilvægasta atriði gæðingadóms er vilji/fjör reiðhestsins með öllu því skapgerðarívafi sem myndar viljann. Vilji og geð þarf að vera þannig að aðrir kostir hestsins nýtist sem best, en ekki má verða til að spilla fyrir þeim. Mest sé metið það fjör, sem án verulegrar viðkvæmni lætur allt í té af ljúfu geði og örlæti.

Taktur og samræmi

Taktur gangsins er mjög mikilvægt atriði í dómi. Þess skal þó grandvarlega gætt að takturinn einn gefur ganginum ekki það hljómfall sem þarf til að skapa gæðing. Taktur, þó hreinn sé, ef sleginn er á stirða strengi, hefur ekki þann seiðmjúka klið sem veitir reiðmanninum þann unað sem fátt jafnast á við. Taktinum þarf að fylgja fjaðurmagn og mýkt. Stíll, taktur og samræmi í hreyfingum sé ávallt metið með það í huga hversu vel það skilar sér í kostum hestsins til reiðar að mati dómara.

Dæmi: Lyfting og snerpa sem eykur fjaðurmagn, framtak og mýkt, gefur hærri einkunn. Telji dómari að hestur sé hins vegar: ofreistur, ósamræmi í hreyfingum og fjaðurmagn lítið, hesturinn allur stífur og vélrænn, dregur það niður einkunn.

Framtak og gangrými

Gripamikið og skörulegt framtak ber að meta hátt og því fremur ef saman fer fasmikill og fögur fótlyfta. Einkum skal gæta vel að samræmi í hreyfingum fram og afturfóta og meta til hækkunar eða lækkunar eftir sjónmati dómara. Ýkta fótlyftu sem jafnvel dregur úr framtaki og þrengir gagnrýni, ber að meta til lækkunar á einkunn.

Fas og hreyfingarfegurð

Glæsilegt og stolt fas með svifléttum, fjaðurmögnuðum og kjarklegum hreyfingum er aðalsmerki á góðum reiðhesti og lyftir einkunn hans verulega. Í gamalli reglugerð um reiðhesta segir: “Hreyfingar reiðhests eiga að vera léttar, fjaðurmagnaðar, háar, svifmiklar, hreinar, sniðfastar og frjálsar”.

Þessi lýsing er enn í fullu gildi og ber að fordæma allt sem rænir hestinn fjaðurmagni og frjálsu fasi, svo sem ýktan fótaburð, sem ekki er í samræmi við aðrar hreyfingar hestsins. Á þessum grundvallaratriðum skal gæðingadómur byggjast.

Stigatafla og hugtök sem dómara eiga að tileinka sér við dómstörf:

 

9,5 - 10            Fullkomin sýning                                7,0 - 7,5           Sæmileg sýning

9,0 - 9,5           Frábær sýning                                    6,5 - 7,0           Slæm sýning

8,5 - 9,0           Mjög góð sýning                                6,0 - 6,5           Afleit sýning

8,0 - 8,5           Nokkuð góð sýning                            5,5 - 6,0           Afspyrnu léleg sýn.

7,5 - 8,0           Viðunandi sýning                                5,0 – 5,5          Óviðunandi sýning

 

Gæðingaleiðari 2012 - útg. 2013

Leiðari fyrir úrslitakeppni 2012

SvŠ­i